Dæmigerðar húsreglur

H Ú S R E G L U R   1. gr. Íbúum er skylt að ganga þrifalega og hljóðlega um íbúðir, sameiginlegt húsrými og lóð og raska ekki að óþörfu friði og ró

Dæmigerðar húsreglur

H Ú S R E G L U R

 

1. gr.

Íbúum er skylt að ganga þrifalega og hljóðlega um íbúðir, sameiginlegt húsrými og lóð og raska ekki að óþörfu friði og ró í húsinu. íbúar skulu jafnan gæta þess að valda öðrum íbúum hússins sem minnstu ónæði og óþægindum og taka fullt tillit til sambýlisfólks síns í allri umgengni.  Íbúðareigendum er óheimilt að nota sameiginlegt húsrými eða lóð til annars en það er ætlað.

2. gr.

Útidyr skulu jafnan læstar, svo og allar hurðir að sameiginlegu húsrými. 

3. gr.

Ekki má skilja eftir fyrir útidyrum eða á gangbraut hússins vélknúin farartæki, reiðhjól eða annað, sem valdið getur truflun á eðlilegri umferð við húsið.       

4. gr.

Forðast skal alla háreysti á göngum og er börnum bannað að hafa stigarými og sameiginlega ganga að leikvangi.  Óheimilt er að geyma muni, sem veldur þrengslum, óþrifum eða óprýði, á stigapöllum eða forstofu eða sameiginlegum göngum.

5. gr.

Íbúum hússins ber skylda til að brýna fyrir börnum að misnota ekki dyrasíma þannig að til óþæginda verði öðrum.

6. gr.

Óheimilt er að hengja fatnað eða tau til þerris á svölum hússins. Þó má hafa þar snúrur, er eigi ná hærra en handriðið. Óheimilt er að fóðra dúfur eða aðra fugla í gluggum eða á svölum.  Við gluggaþvott skal þess sérstaklega gætt að ekki leki niður á glugga neðar í húsinu.

7. gr.

Hunda‑ og kattahald er með öllu bannað í húsinu.

8. gr.

Á sameiginlegri lóð hússins má ekki geyma neitt þar, er veldur þrengslum, óþrifnaði og óprýði.  Á bílastæði hússins má alls ekki geyma óskráða eða ónýta bíla.

9. gr.

Í geymslum íbúða ber að gæta fyllsta hreinlætis og varast að geyma þar nokkuð, er valdið getur óþrifum eða ólykt.

10. gr.

Sorp og annar úrgangur skal sett í þar til gerðar plastumbúðir og skal þeim lokað það vandlega, að ekkert losni úr þeim á leið niður sorprásina. Íbúum er skylt að sýna ítrasta hreinlæti og þrifnað við notkun sorprenna og allt, sem þær snertir.

11. gr.

Eftir kl. 24.00 og til kl. 7.00 má ekkert það aðhafast, er raskað geti svefnfriði annarra íbúa hússins.  Séu veislur haldnar af meiri háttar tilefni getur stjórn húsfélagsins framlengt fyrrgreint tímabil, en jafnan skal þess þó gætt, að hávaði verði sem minnstur.

12. gr.

Sameiginleg upphitun skal miðuð við 20 gráður á celcius.

13. gr.

Íbúðareigendum ber að kynna leigjendum sínum þessar reglur.

14. gr.

Hverjum íbúðareiganda er skylt að hafa ávallt handbært í íbúðum sínum eintak af reglum þessum.

15. gr.

Ef ágreiningur verður varðandi óþrifalega umgengni, hávaða að næturlagi, hegðun barna og fleiri atriði varðandi sambýlisháttu, skulu kvartanir þar að lútandi bornar skriflega fram við hússtjórn.  Skal hússtjórnin leitast við að skera úr og leysa slík ágreiningsmál.


Samþykkt á stofnfundi þann ............... 

Búseti

Síðumúla 10 | 108 Reykjavík
Sími: 556 1000 
Netfang: buseti [hja] buseti.is
Opnunartími: 10:00 - 16:00

Skráðu þig á póstlistann hér